Nýtt fangelsi byggt á Litla-Hrauni

Á Litla-Hrauni. sunnlenska.is/Egill Bjarnason

Nýtt fangelsi verður byggt á Litla-Hrauni í stað núverandi aðstöðu og mun undirbúningur að þeirri framkvæmd hefjast strax. Þetta kom fram á kynningarfundi sem Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar héldu á Litla-Hrauni í vikunni.

Til stóð að bæta og stækka aðstöðuna á Litla-Hrauni og var samkeppni um hönnun lokið síðasta vetur, ásamt forvali á verktökum fyrir verkefnið, þar sem til stóð að byggja um 1.400 fermetra nýs húsnæðis og bæta 2.000 fermetra eldra húsnæðis.

Ítarleg skoðun og greining á aðstöðu á Litla-Hrauni leiddi hins vegar í ljós að nauðsynlegt væri að ráðast í byggingu nýs fangelsis, sem koma á í staðinn fyrir þá aðstöðu sem nú er á Litla-Hrauni.

Við uppbyggingu nýja fangelsisins verður byggt á nútímaþekkingu á sviði betrunar og öryggismála, með hagsmuni fanga, starfsmanna og fjölskyldna fanga í huga. Í máli Páls kom fram að þessar umbætur væru þær stærstu í sögu íslenskrar fullnustu en uppbygging á Litla-Hrauni hingað til hefði einkennst af bútasaumi sem svaraði ekki kalli um nútímalega fullnustu og betrun fanga.

Opnum rýmum fjölgað á Sogni
Einnig verður opnum rýmum í fangelsinu á Sogni fjölgað, þar sem 14 ný rými verða tekin í notkun á næstu mánuðum en fyrir eru 21 rými. Nemur kostnaður við þá uppbyggingu um 350 milljónum króna. Með þessu er meðal annars verið að bregðast við ábendingum frá Umboðsmanni Alþingis en nýlegri skýrslu kom fram að staða kvenna í íslenskum fangelsum væri lakari en staða karla. Með breytingum á Sogni er verið að bæta stöðu kvenna í fangelsum og auka möguleika þeirra á að taka út vistun sína í viðeigandi aðstæðum.

Fyrri greinUSVS og HSK sækja bæði um Landsmót 50+
Næsta greinAllt að 10% verðlækkun á fóðri hjá Líflandi