Samfylkingin í Árborg og nágrenni efndi til fagnaðar sídegis í dag þar sem húsnæði félagsins að Eyravegi 15 á Selfossi var vígt.
Vinir og velunnarar Samfylkingarinnar mættu, ásamt ráðherrum, þingmönnum og öðrum félagsmönnum.
Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur á Selfossi, blessaði húsnæðið og Sigurjón Erlingsson, gjaldkeri félagsins, var heiðraður sérstaklega en í máli Þorláks H. Helgasonar, formanns félagins, kom fram að húsnæðið hefði aldrei orðið að veruleika án þess góða starfs sem Sigurjón hefur unnið.
Húsnæðið er um 100 fm við hlið verslunarinnar Veiðisport.
„Það skiptir miklu máli fyrir félagsstarfið að hafa fast land undir fótum. Í húsinu mun ríkja gleði í bland við pólitíska alvöru, en við höfum hug á því að sem flestir geti nýtt sér húsið fyrir ýmiskonar samkomur,“ sagði Þorlákur meðal annars við vígslu hússins.