Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum í gær að skipta út gervigrasi á sparkvelli við Bláskógaskóla á Laugarvatni.
Fyrir fundinum lá ósk foreldrafélags skólans um að gúmmíkurl verði fjarlægt af vellinum og fulltrúi Þ-lista lagði fram tillögu um að dekkjakurli verði skipt út nú þegar og að þeirri vinnu verði lokið fyrir lok október næstkomandi.
Á áætlun hjá sveitarfélaginu er að skipta út gervigrasi á sparkvellinum árið 2023 og setja gervigras sem ekki þarf að nota kurl með. Ekki er hægt að ráðast í verkefnið í haust, þar sem afgreiðslufrestur á nýju gervigrasi er 4-6 vikur og um 30% viðbótarkostnaður áætlaður ef grasið yrði lagt í nóvember. Ákveðin veðurfarsskilyrði þarf til þess að leggja nýja gervigrasmottu en ekki má vera of kalt í veðri.
Einnig var kannaður möguleikinn á að fjarlægja kurlið af vellinum fyrir veturinn, en það hefur þá ókosti að slysahætta verður meiri og völlurinn verður harður.
Sveitarstjórn samþykkti að ráðist verði í verkið á næsta ári og að framkvæmdir hefjist í júní.