Á Viss, vinnu- og hæfingarstöð á Selfossi, hefur verið tekið í notkun Motomed endurhæfingarhjól en átta aðilar gáfu fé til kaupanna.
Viss leitaði í vor eftir styrkjum hjá félagasamtökum til að fjármagna kaupin á hjólinu og er það nú komið í hús og var formlega afhent í dag. Hjólið kostar tæpar 900 þúsund krónur.
Að sögn Ragnhildar Jónsdóttur, forstöðuþroskaþjálfa á Viss, eykur Motomed hjólið á teygjanleika og blóðflæði í útlimum, slakar á spasma og eykur á göngufærni. Það bætir andlega og líkamlega vellíðan og eykur á fjölbreytni daglegs lífs.
„Hjólið mun nýtast öllum einstaklingum sem sækja þjónustu á Viss, ekki síst þeim sem litla hreyfigetu hafa. Með sameiginlegum krafti margra aðila tókst að safna fyrir þjálfunarhjólinu og viljum við þakka öllum þeim sem komu að því að gera kaupin að veruleika,” sagði Ragnhildur í samtali við sunnlenska.is.
Gefendur af Motomed hjólinu eru Kvenfélag Gaulverjabæjar, Kvenfélag Skeiðahrepps, Kvenfélag Laugdæla, Kvenfélagið Eygló, Kvenfélag Selfoss, Lionsklúbburinn Emblur Selfossi, Kiwanisklúbburinn Búrfell og hjónin Ragnar Lárusson og Fríða Björk Hjartardóttir í Stóra-Dal undir V-Eyjafjöllum.