Eigna- og veitunefnd Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að hefja framkvæmdir við nýtt leiksvæði við Hólatjörn á Selfossi.
Svæðið er staðsett á milli Hólatjarnar, Tjaldhóla og Fögruhellu og nýtist stóru íbúðahverfi í nágrenninu.
Öll leiktæki á leiksvæðinu verða frá Lappset en gert er ráð fyrir þremur leikvöllum á svæðinu. Afgirtur leikvöllur verður fyrir yngstu börnin þar sem verður lítil rennibraut, gormatæki, skip og tvö göng. Á næsta svæði verða tvö rólusett, annað með ungbarnasætum en einnig kastali, hringekja og jafnvægistæki. Á þriðja svæðinu verða skógarstígar og leiktæki í asparlundi þar sem meðal annars gert ráð fyrir brú og jafvægistæki auk kastala. Gróðursett verður í kringum leiksvæðið og sett upp borð og bekkir.
Sviðsstjóra mannvirkja- og umhverfissviðs hefur verið falið að hefja framkvæmdirnar í samræmi við þau hönnunargögn sem lögð voru fram á síðasta fundi eigna- og veitunefndar.