Mikil reiði er í Stokkseyringum vegna breytingar á póstnúmerum við ströndina.Póstáritunin „825 Stokkseyri“ verður lögð niður og Stokkseyringar fá póstnúmerið „820 Eyrarbakki“. Öllum pósti á ströndina verður ekið frá Selfossi í dreifimiðstöð póstsins í Vesturbúð á Eyrarbakka þar sem hann verður flokkaður.
Breytingin tók gildi nú um mánaðamótin samhliða breytingu á póstnúmeri í Ölfusinu sem einnig hefur verið mótmælt. Póstáritunin í dreifbýlinu í Stokkseyrarhreppi verður áfram „801 Selfoss“.
Í samtali við sunnlenska.is sagði Páll Guðfinnsson, íbúi á Stokkseyri, að málið hefði verið illa kynnt fyrir íbúum og því beinlínis haldið leyndu fyrir þeim. „Enginn heilvita Stokkseyringur hefði samþykkt að hér verði notuð póstáritun Eyrarbakka,“ segir Páll.
Vegna þessa ætla Stokkseyringar að rísa upp á afturlappirnar og halda samstöðufund í Shellskálanum kl. 18 í dag. Þar verður safnað undirskrifum og samþykkt harðorð ályktun sem send verður Póstnúmeranefnd Íslandspósts.
ATH. Um er að ræða frétt frá árinu 2011 – aprílgabb ársins.