Nýtt reykhús opnar innan skamms

Nýtt reykhús verður opnað á Hellu innan skamms en búið er að reisa ríflega 300 fermetra hús gagngert fyrir starfsemina.

Að sögn Torfa Sigurðssonar vélavarðar er fjárfestingin á bak við fyrirtækið á milli 40 og 50 milljónir króna. Með honum í verkefninu eru þeir Helgi Einarsson og Ólafur Júlíusson sem búsettir eru á Hellu.

Torfi sagðist gera ráð fyrir að þeir þrír eigendur fyrirtækisins myndu vinna við það en þeir hafa unnið að byggingu hússins í sumar.

Það kom fram hjá Torfa að kveikjan að fyrirtækinu er sú staðreynd að í næsta nágrenni eru tvær gjöfulustu veiðiár landsins. Einnig er stefnt að því að bjóða upp á reykingu villibráðar og annars kjötmetis og miðast starfsleyfi fyrirtækisins við það. Þess má geta að áður hafa verið tvö reykhús af þessu tagi á svæðinu en aldrei með þessari afkastagetu.

Að sögn Torfa skiptir einnig miklu máli að Landeyjahöfn tengir svæðið miklu betur við Vestmannaeyjar. ,,Við höfum verið í viðræðum við stóran aðila um að reykja fisk til út­flutnings og það væri spennandi ef af því yrði.“

Fyrri greinHelena hætt með Selfoss
Næsta greinSkipulagsmálin í gíslingu ráðherra