Ný aðveitulögn á hitaveitu Selfossveitna frá Þorleifskoti að miðlunartanki sparar veitunum að líkindum um 5-600 þúsund krónur á mánuði í rafmagnskostnað en lögnin var tekin í notkun fyrir fáeinum vikum.
Þar sem útfelling var orðin mikil í lögninni sem fyrir var þurfti að viðhalda þrýstingi með dælu sem kallaði á talsverða notkun á rafmagni. Framkvæmdin skilaði alls aukningu í orkuvinnslu um 22 lítra á sekúndu, eða því sem nemur um 10% af heildarnotkun heitavatns í sveitarfélaginu Árborg.
Að sögn Gunnars Egilssonar formanns framkvæmda- og veitustjórnar munar mikið um þessa aukningu þar sem litlu megi muna að vatnsöflun hafi verið fullnægjandi að undanförnu. Þá eru til skoðunar frekari framkvæmdir við vatnsöflun hjá Selfossveitum en reiknað er með fjárfestingum hjá fyrirtækinu fyrir hátt í 200 milljónir króna á þessu ári.
Frá árinu 1948 hefur öflun á heitu vatni verið að mestu leyti í nágrenni Þorleifskots og Laugardæla. Þetta svæði er nú talið fullnýtt og nokkuð hefur borið á kólnun á svæðinu á sama tíma og sveitarfélagið Árborg hefur vaxið töluvert. Selfossveitur hafa mætt þessari aukningu með borun í Ósabotnum í landi Stóra-Ármóts. Þetta var gert bæði til að styrkja vatnsöflun fyrir hitaveituna og auka afhendingaröryggi, en í dag eru þar tvær vinnsluholur ásamt dælustöð.
Framkvæmda og veitustjórn hefur rætt við Orkuveitu Reykjavíkur um afnot af borholu í landi Öndverðarness og í framhaldinu falið Verkfræðistofu Suðurlands að gera athugun á kostnaði við að veita vatni frá Öndverðarnesi að Ósabotnum.
Lagnaleiðir frá Öndverðanesi eru stystar með því að þvera Hvítá eftir árbotninum, en mikill óvissa er um kostnað og útfærslu án frekari rannsókna. Að fara yfir Hvítá með því að byggja göngubrú er „einfaldari“ lausn og viðhald og rekstur á lögninni væri aðgengilegri en það kostar hinsvegar umhverfismat og samningsviðræður við sumarhúsaeigendur.
Lagnaleiðin yfir núverandi Sogsbrú og nýja Ölfusárbrú veitir mjög gott aðgengi að lögninni og gefur einnig góða möguleika á framtíðarvatnsöflun. Lagnaleiðin er hinsvegar löng og ekki hægt að framkvæma fyrr en ný Ölfusárbrú er byggð.