Nýtt Skaftárhlaup að hefjast

Fyrstu merki þess að hlaup geti verið að hefjast úr eystri Skaftárkatli hafa komið fram á mælum Veðurstofunnar. Órói hefur mælst á mælum í kringum vestanverðan Vatnajökul frá miðnætti í nótt og grugg hefur frá sama tíma aukist mikið á mæli í Skaftá við Sveinstind.

Vatn úr eystri katlinum hefur enn ekki komið fram á mælinum við Sveinstind.

Ef af verður, er ekki búist við að hlaupið nái hámarki í byggð fyrr en á föstudag. Þar sem stutt er síðan hljóp úr katlinum síðast er ekki búist við stóru hlaupi, en það verður þó töluvert stærra en hlaupið úr vestari katlinum sem nú er að ganga niður. Vegurinn í Skaftárdal mun væntanlega lokast og eins gæti vatn flætt yfir Skaftártunguveg við Hvamm og veginn við Hólaskjól á Fjallabaksleið nyrðri í hámarki flóðsins.

Fólki er ráðlagt að vera ekki nálægt upptökum Skaftár eða í lægðum meðfram henni vegna mengunar af völdum brennisteinsvetnis, en brennisteinsvetni getur skaðað slímhúðir í augum og öndunarvegi.

Fyrri greinLeigumál Kerhólsskóla að leysast
Næsta greinBarn flutt með þyrlu á spítala