Sveitarfélagið Ölfus, Landsbankinn og Þekkingarsetrið Ölfus Cluster hafa komist að samkomulagi um opnun skrifstofuhótels og vinnustofu með áherslu á fjarvinnu í Þorlákshöfn. Stefnt er að því að opna fjarvinnuverið 1. nóvember nk. í Hafnarbergi 1 þar sem útibú bankans er nú til húsa en útibúið færir sig um set í sama húsi.
Mikilvægt að tryggja aðgengi bankaþjónustu
Elliði Vignisson, bæjarstjóri, segir að Sveitarfélagið Ölfus hafi um langt skeið átt afar farsælt samstarf við Landsbankann. „Við erum því fyrst og fremst ánægð með að frábær þjónusta bankans hér í Þorlákshöfn verður tryggð. Fólksfjölgun hér er hröð og því afar mikilvægt fyrir okkur að tryggja aðgengi að þessari mikilvægu þjónustu. Bankaþjónusta um allan heim hefur verið að breytast og hjá okkur ríkir fullur skilningur á því að húsnæðisþörfin hefur líka breyst. Við erum líka þakklát fyrir að Landsbankinn sjái tækifæri í að halda hér áfram þjónustu og þá ekki síður fyrir að þau skuli sýna metnað til þess að þróa samfélagið hér með okkur með aðkomu að uppbyggingu Þekkingarsetursins Ölfus Cluster og tilkomu skrifstofuhótels og vinnustofu,“ segir Elliði.
Ánægjulegt að koma að uppbyggingunni í Þorlákshöfn
Undir þetta tekur Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, en hún segir að viðskiptavinir bankans kjósi í síauknum mæli að nota stafrænar lausnir til að sinna sínum bankaviðskiptum þegar þeim hentar. „Hægt er að fá nánast alla almenna bankaþjónustu í netbankanum, Landsbankaappinu eða í hraðbönkum. Heimsóknum í útibú hefur þar af leiðandi snarfækkað og húsnæðisþörfin breyst. Það er ánægjulegt að koma að þessari uppbyggingu í Þorlákshöfn og sjá húsnæðið fá nýtt og spennandi hlutverk. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að einbeita okkar að því að gera líf viðskiptavina okkar einfaldara með aðgengilegri þjónustu og góðri ráðgjöf. Það er Landsbanki nýrra tíma.“
Þörfin fyrir fjarvinnuaðstöðu hefur vaxið hratt
Að sögn Páls Marvins Jónssonar, framkvæmdastjóra Ölfus Cluster, vinna fjölmargir íbúar Ölfuss í fjarvinnu. „Sveitarfélagið Ölfus og þá ekki síst Þorlákshöfn eru í mikilli og hraðri uppbyggingu. Fólki fjölgar hratt hér og þarfir samfélagsins breytast samhliða nýjum takti. Fjölmargir íbúar vinna störf sín í fjarvinnu og Covid-ástandið hefur flýtt þeirri þróun. Þörfin fyrir fjarvinnuaðstöðu hefur því vaxið hratt og við viljum mæta þeirri þörf með því að koma hér upp skrifstofuhóteli og vinnustofu. Við höfum líka fengið fjölda fyrirspurna frá fyrirtækjum sem hér eru eða eru að flytja hingað og vilja fá afnot af skrifstofuhúsnæði. Þetta stóra skref gerir okkur einnig mögulegt að mæta þeirri eftirspurn,“ segir Páll Marvin.