„Þessi vegrið eru tiltölulega nýkomin þannig að reynslan er takmörkuð. Við höfum enn sem komið er ekki lent í neinum vandræðum vegna þeirra svo ég viti til.“
Þetta segir Ármann Höskuldsson, yfirmaður sjúkraflutninga Heilbrigðisstofnunar Suðurlands aðspurður hvort nýja vegriðið frá hringtorginu á Suðurlandsvegi við Hveragerði og upp Kambana truflaði sjúkraflutningamenn eitthvað.
„Vissulega þrengja þau að og gera okkur erfiðara um vik að komast að slysum sem mögulega verða á akreinum í austurátt, þar sem við komum úr vestri. En umferðaröryggið er þó töluvert meira í heildina litið fyrir almenna umferð,“ segir Ármann.
„Það eru einhver bil á milli vegriðanna þar sem hægt er að snúa við og við munum nýta okkur það.“
Skiptar skoðanir hafa verið meðal ökumanna um ágæti víravegriðanna í Kömbunum en þau sönnuðu þó gildi sitt í vikunni fyrir jól þar sem bifreið á leið niður Kambana hafnaði á vegriðinu. Að sögn lögreglu voru bílar að koma upp Kambana á sama tíma og augljóst að þar hefði getað orðið alvarlegt slys ef vegriðið hefði ekki skilið á milli akreinanna.