Athyglisverðar umræður áttu sér stað á síðasta fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þar sem D-listinn lagði fram tillögu um þakkir til hreppsnefndarmanna fyrir vel unnin störf.
D-listinn lagði til að bókaðar yrðu þakkir til Steindórs Tómassonar og Ingvars Pétur Guðbjörnssonar fyrir vinnu þeirra við að koma upp skilti á bakka Ytri Rangár til minningar um 100 ára afmæli gömlu brúarinnar yfir Ytri-Rangá.
Steindór lagði þá fram bókun þar sem hann sagðist ekki vilja vanþakka hlýleg orð í sinn garð heldur teldi hann að það myndi æra óstöðugan ef sveitarstjórnarmönnum væri þakkað opinberlega í hvert sinn sem ágætlega tekst til með verkefni sem þeim eru falin.
„Þau eru fjölmörg eins og gefur að skilja og mörg hver mun viðameiri en þetta annars ágæta verkefni. Að því komu mun fleiri en umræddir sveitarstjórnarmenn og ekki ástæða til að þakka okkur sérstaklega umfram það ágæta fólk,“ sagði í bókun Steindórs.
Sveitarstjórn samþykkti því að þakka öllum þeim sem að verkefninu komu.