Mikil óánægja er í Mýrdalnum með breyttan opnunartíma heilsugæslustöðvarinnar í Vík sem er nú opin milli klukkan níu og tólf á virkum dögum.
Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis, segir að margir séu ósáttir við þetta en opnunartími heilsugæslunnar hefur verið minnkaður um helming frá því sem áður var.
„Það efast margir um að sparnaður sé af því þegar upp er staðið að stytta opnunartímann um það sem þessu nemur,“ segir Björgvin í samtali við sunnlenska.is en hann hefur óskað eftir fundi vegna málsins með framkvæmdastjóra HSu og sveitarstjóra Mýrdalshrepps.
„Meginmálið er að mínu mati það hvort hér sé gengið of langt gagnvart aðgengi að grunnþjónustu í heilsugæslu. Ég hef fyrir hönd þingmannahópsins óskað eftir fundi til að fara yfir málið með yfirveguðum hætti og sjá hvort ekki er flötur á því sem hægt er að ná saman um.“