Fimm nemendur Menntaskólans að Laugarvatni gerðu áhugavert myndband í lokaverkefni stjórnmálafræðiáfanga við skólann, um stöðu íþróttahússins á Laugarvatni.
Framtíð íþróttahússins og sundlaugarinnar á Laugarvatni er í óvissu eftir að Háskóli Íslands hætti starfsemi á laugarvatni, og húsið mun flytjast til Ríkiseigna, sem er eigandi þess.
„Við ákváðum að gera stöðu Íþróttahúsins á Laugarvatni að umfjöllunarefni lokaverkefnis í stjórnmálafræði. Staðan sem samfélagið stendur frammi fyrir er óásættanleg og stjórnvöldum ber að bregðast við og það í lausnum,“ segir Þórarinn Guðni Helgason, einn þeirra sem vann myndbandið.
„Við vonum svo sannarlega að vitundarvakning muni eiga sér stað um mikilvægi íþróttahúsins. Síðan þetta verkefni var unnið hefur ríkið fundað með Bláskógarbyggð og öðrum hagsmunaaðilum, svo það er komin hreyfing á málið en við þurfum lausnir. Manngildi, þekkingu og síðast en ekki síst atorku! Nú þurfum við ML-ingar sem og aðrir sem koma að málinu að láta atorku verða að leiðarljósi í málefni sem varðar framtíð Laugarvatns,“ segir Þórarinn Guðni.
Þórarinn Guðni vann verkefnið ásamt Gunnari Karli Gunnarssyni, Jóni Lárusi Stefánssyni, Sigurði Pétri Jóhannessyni og Tryggva Kristjánssyni, en myndbandið má sjá hér að neðan.