Bæjarstjórn Ölfuss harmar þá þróun sem orðið hefur í sveitarfélaginu varðandi stöðu aflaheimilda á síðustu árum og þá sérstaklega síðustu mánuðum.
Á innan við ári hafa rúmlega 3500 þorskígildistonn verið seld fyrirtækjum utan sveitarfélagsins en þessar aflaheimildir telja 60% skráðra veiðiheimilda í sveitarfélaginu á líðandi fiskveiðiári.
Samkvæmt fréttatilkynningu sem birtist á vefsíðu HB Granda 26. júlí sl. munu aflaheimildir þær sem áður tilheyrðu Hafnarnesi Ver verða nýttar til að tryggja afla til vinnslu á Vopnafirði. Aflaheimildir Hafnarness Vers eru um 28% skráðra aflaheimilda í Þorlákshöfn á yfirstandandi fiskveiðiári.
Í sameiginlegri yfirlýsingu bæjarstjórnar Ölfuss segir að þetta sé hrikaleg þróun, í raun ótrúleg og hugsanlega fordæmalaust að jafn stór hluti veiðiheimilda hverfi úr einni verstöð á jafn skömmum tíma með tilheyrandi afleiðingum. Um 32% skráðra aflaheimilda í Þorlákshöfn voru sl. haust seldar þegar Skinney Þinganes keypti öll hlutabréf í Auðbjörgu.
„Skinney Þinganes heldur úti öflugum rekstri í Þorlákshöfn og bera bæjaryfirvöld traust til þess að sú starfsemi muni vaxa og dafna um ókomna tíð. Slík þróun mun því miður ekki eiga sér stað með þær aflaheimildir sem tilheyrðu Hafnarnesi Ver og nú hverfa úr sveitarfélaginu,“ segir í yfirlýsingu bæjarstjórnar sem finnst miður að hafa frétt fyrst af sölu veiðiheimilda Hafnarness Vers í gegnum fjölmiðla, þó svo vitað hafi verið að skuldastaða fyrirtækisins væri erfið.
„Forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa jafnan hvatt til þess að leitað sé leiða til að selja veiðiheimildir innan sveitarfélagsins og með hagsmuni samfélagsins í huga sé þess nokkur kostur. Með því móti er hægt styrkja stöðu heimabyggðar í fiskveiðum og vinnslu til framtíðar.
Það kemur reglulega í ljós að þeir fyrirvarar sem sveitarfélög hafa samkvæmt lögum til að tryggja veiðiheimildir í heimabyggð eru bara til málamynda. Segja má að það eina sem forsvarsmenn sveitarfélaga geti gert til að hafa áhrif á að veiðiheimildir haldist í heimabyggð sé að höfða til eigenda þeirra fyrirtækja sem yfir aflaheimildunum ráða. Því fylgir mikil ábyrgð að vera handhafi veiðiheimilda og það er mikilvægt samfélagsmál að eigendur þessara fyrirtækja horfi til hagsmuna þeirra sveitarfélaga sem þeir starfa í og leiti allra leiða til að ráðstafa veiðiheimildum innan síns byggðarlags.
Bæjaryfirvöld Sveitarfélagsins Ölfuss munu koma þeim skilaboðum á framfæri við stjórnvöld að verja þurfi sérstaklega störf tengd sjávarútvegi í byggðum landsins þar sem sjávarútvegur er grunnatvinnugrein. Það er óásættanlegt að tugum starfa sé ógnað í aðgerðum sem teljast mega ónauðsynlegar í samfélagslegu tilliti,“ segir ennfremur í yfirlýsingu bæjarstjórnar Ölfuss.