Tuttugu og fjórar óbyggðar íbúðir eru komnar á sölu í Hveragerði, þrátt fyrir að ekki sé búið að taka fyrstu skóflustunguna að þeim.
Um er að ræða byggingareit við Heiðmörk og Þelamörk sem verktaki í Reykjavík hefur keypt.
„Mér skilst að hann sé of upptekinn við byggingu blokkar í Reykjavík og þess vegna hefur ekki verið hafist handa þarna,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði.
Gríðarleg eftirspurn er eftir íbúðum í Hveragerði, líkt og víðar í vestanverðri Árnessýslu, og hefur söluverð íbúðarhúsnæðis hækkað verulega.
„Það selst allt sem sett er á sölu, það er mikið um að fólk leiti hingað úr höfuðborginni, og það er ekki bara lægra verð á húsnæði sem dregur það hingað að heldur líka gæði í tilverunni,“ segir bæjarstjórinn.