Oddný gefur ekki kost á sér

Oddný Harðardóttir. Mynd/Facebook

Oddný Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, hyggst ekki sækjast eftir sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum.

„Þá ákvörðun hef ég melt með mér og fjölskyldu minni í nokkurn tíma og er nú ákveðin í að þetta verði mitt síðasta kjörtímabil á þingi. Ég þakka þeim traustið sem hafa hvatt mig til að bjóða mig fram að nýju og þakka stuðning og samveru í pólítíkinni í bráðum 16 ár. En ég er ekki að kveðja alveg strax. Ég verð þingmaður fram að næstu kosningum,“ segir Oddný í færslu á Facebook.

Oddný hefur verið alþingismaður fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi síðan 2009. Hún var fjármálaráðherra 2011-2012, iðnaðarráðherra 2012 og fjármála- og efnahagsráðherra 2012.

Hún var formaður þingflokks Samfylkingarinnar 2011-2013 og 2016-2021 en á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka hefur hún verið 1. varaforseti Alþingis.

Fyrri greinHamar úr leik eftir hetjulega baráttu
Næsta greinGlæsilegur útisigur Selfosskvenna