Oddný Steina kosin formaður LS

Oddný Steina Valsdóttir, bóndi á Butru í Fljótshlíð, var kosin formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, á aðalfundi samtakanna í dag. Hún er fyrsta konan til að gegna formennsku í LS.

Oddný Steina tekur við af Þórarni Inga Péturssyni sem gaf ekki kost á sér, en hann var kjörinn formaður árið 2012. Hún var sú eina sem lýsti yfir framboði til formennsku en allir félagsmenn voru í kjöri. Oddný Steina hlaut 44 af 46 greiddum atkvæðum.

Hún kom ný inn í stjórn LS árið 2012 og hefur verið varaformaður samtakanna síðan.
Nýi formaðurinn býr á Butru í Fljótshlíð ásamt sambýlismanni, þremur börnum með um 500 vetrarfóðraðar kindur og um 70 íslensk naut. Oddný Steina er fædd og uppalin í Úthlíð í Skaftártungu. Hún er menntaður búfræðingur frá Bændaskólanum frá Hvanneyri og tók síðan háskóladeildina í framhaldi.
Ný stjórn var einnig kosin á aðalfundinum og í henni sitja Gunnar Þórarinsson, Þóroddsstöðum, Þórhildur Þorsteinsdóttir, Brekku, og Trausti Hjálmarsson, Austurhlíð. Þeir Gunnar og Trausti koma nýir inn, en út úr stjórn fer Atli Már Traustason, Syðri-Hofdölum.
Fyrri greinUndirbúningur fyrir 17. júní gengur vel
Næsta greinÁrborg náði í stig en KFR tapaði