Oddný vann yfirburðasigur

Oddný G. Harðardóttir vann yfirburðasigur í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Oddný fékk stuðning rúmlega 65% kjósenda í 1. sætið.

Úrslitin voru lesin upp á Hótel Selfossi klukkan rúmlega 19 í kvöld, þar sem flestir frambjóðendanna voru viðstaddir.

Oddný fékk 1.010 atkvæði í 1. sæti en næstur kom Björgvin G. Sigurðsson með 669 atkvæði í 1.-2. sæti. Arna Ír Gunnarsdóttir varð þriðja með 456 atkvæði í 1.-3. sæti og Árni Rúnar Þorvaldsson fjórði með 622 atkvæði í 1.-4. sæti.

Kosningin var bindandi í fyrstu fjögur sætin en í 5. sæti varð Ólafur Þór Ólafsson með 615 atkvæði í 1.-5. sæti og Bryndís Sigurðardóttir sjötta með 637 atkvæði í 1.-6. sæti.

Alls voru 3.548 flokksfélagar og stuðningsmenn á kjörskrá og greiddu 1.551 atkvæði, eða 43,71% kjörgengra.

Ekki þurfti að beita ákvæðum til að tryggja jafnt hlutfall kynja á listanum.

Fyrri greinVilja stofna lýðháskóla í Skógum
Næsta grein„Aldrei ánægður með að ná ekki settu marki“