Oddur Guðni Bjarnason á Stöðulfelli, varaoddviti og fulltrúi N-listans í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, hefur velt upp hugmyndum um óhlutbundna kosningu í hreppnum í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar voru þrír listar í framboði í hreppnum sem telur rúmlega 500 íbúa. Það voru K-listi farsælla framfarasinna sem fékk 186 atkvæði og þrjá kjörna fulltrúa, N-listi nýrra tíma og nýs afls sem fékk 85 atkvæði og einn fulltrúa og E-listi Einingar sem fékk 51 atkvæði og einn kjörinn fulltrúa.
Oddur ritar pistil í nýjasta fréttabréf Skeiða- og Gnúpverjahrepps og segir að öll hafi þessi framboð haft mismunandi stefnuskrá. „Eins og allir vita gekk samstarfið misvel, meirihluti féll nýr tók við samt gekk þetta kjörtímabil með ágætum. Öll erum við vinir og félagar og viljum sveitarfélaginu allt hið besta,“ segir Oddur og bætir við að það séu til fleiri aðferðir en að kjósa lista sem nokkrir einstaklingar setja saman til að koma stefnu sinni eða einhverjum einstaklingum á framfæri.
„Ég hef verið að hugleiða, hvort ekki sé hægt að kjósa að þessu sinni óhlutbundið, það er að engir listar verði boðnir fram en í þess stað yrðu einstaklingar kosnir á eigin verðleikum. Er það víst að listakosningar skili okkur bestu einstaklingum til stjórnunar á sveitafélaginu? Eru listakosningar bestar til að sameina íbúa sveitarinnar?“ spyr Oddur og segir að til þess að óhlutbundin kosning sé möguleg verði allir að vera sammála um aðferðina.
Oddur er nú að ljúka sínu fyrsta kjörtímabili í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps og segir hann tímann hafa verið lærdómsríkan og skemmtilegan á köflum. Þessi ár séu hins vegar nægur tími fyrir hann og biðst hann undan endurkjöri við næstu kosningar.