Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti á fundi sínum í dag að fresta formlegri ráðningu sveitarstjóra til næstu áramóta og að varaoddviti muni sinna starfinu áfram. Hvorki er eining um þá ráðningu í hreppsnefndinni né hjá íbúum hreppsins.
Nanna Jónsdóttir, varaoddviti, mun áfram sinna störfum sveitarstjóra til næstu áramóta og verða starfskjör og starfshlutfall hennar þau sömu og fyrri sveitarstjóri hafði.
Í greinargerð með bókuninni segir að ljóst sé að ekki sé eining um fyrirkomulag ráðningarinnar, hvort sem er innan eða utan hreppsnefndar. Meðal annars söfnuðu íbúar undirskriftum og skoruðu á hreppsnefnd að auglýsa starfið laust til umsóknar.
Meirihluti hreppsnefndar telur hins vegar að það að ráðast í ráðningarferli núna við þessar aðstæður er ekki vænlegt til árangurs og vandséð að sátt náist um það, sem væri þó æskilegt. Margvísleg verkefni bíði nú úrlausnar, meðal annars frágangur ársreiknings, framkvæmd ljósleiðaraverkefnis og viðræður um form og rekstur samstarfsverkefna milli Ásahrepps og Rangárþings ytra.
Egill Sigurðsson og Elín Grétarsdóttir samþykktu þessa tillögu, ásamt Nönnu sjálfri. Brynja Jóna Jónasdóttir og Karl Ölvisson greiddu hins vegar atkvæði gegn henni.
“Ég vil undirstrika vanþóknun mína á því að málið hafi hlotið þennan endi. Vilji meirihluta íbúa Ásahrepps um að auglýsa starf sveitarstjóra á faglegan hátt og ráða þann hæfasta, hefur hér verið hafður að engu. Einhverjir aðrir hagsmunir en hagsmunir sveitarfélagsins ráða nú för. Það að sveitarstjórnarmaður geti sjálfur greitt sér atkvæði, þegar verið er að ráða í stærsta starf sveitarfélagsins, er jú löglegt en klárlega siðlaus,” sagði Brynja Jóna í bókun á fundinum. “Menntun, reynsla og þekking á þeim málum sem sveitarstjóra eru falin, eru hér hafðar að engu,” bætti Brynja við og óskaði Nönnu velfarnaðar í starfi.
Karl tók í sama streng og sagðist ekki ánægður með þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við ráðningu sveitarstjóra. “Ég hefði viljað að farið hefði fram meiri umræða t.d. að farið hefði verið í gegnum þær umsóknir sem þegar höfðu borist eða auglýsa stöðuna aftur til umsóknar. Með því móti hefði verið hægt, jafnvel með hjálp fagaðila að ráð í stöðu sveitarstjóra á óhlutdrægan og lýðræðislegan máta.”