Stór hluti af malarvegum í Landeyjunum er verulega illfær þessa dagana en vegirnir eru flóttaleiðir íbúa af svæðinu fari að gjósa undir Eyjafjallajökli.
„Maður er að gefast upp á að smala krökkunum saman þarna. Það er ekkert gert til að halda vegunum við, þó eru þetta viðurkenndar rýmingarleiðir ef það fer að gjósa,” sagði Sigurður Jónsson, skólabílstjóri á Hvolsvelli, í samtali við sunnlenska.is.
Tvívegis þurfti að rýma svæðið um miðja nótt í lok mars í fyrra en áætlað er að rýming á svæðinu eigi að taka 30 mínútur.
„Í fyrra voru vegirnir fínir en þeim er ekkert haldið við núna og Vegagerðin hefur ekki einu sinni fyrir því að reisa við vegstikur. Frá Hemlu að Njálsbúð liggja örugglega einar sextíu stikur niðri,” segir Sigurður sem keyrir þessa vegi sex sinnum á dag með skólakrakka.
„Ég velti því fyrir mér hvort ég eigi að nota sömu taktík og skipstjóri Herjólfs og neita að keyra þetta. Maður veit ekki hvort maður er að aka bílaveg eða kindagötu og þessu fylgir endalaust viðhald á bílnum,” sagði Sigurður einnig.