Ófært er um Auðsholtsveg í Hrunamannahreppi vegna vatnavaxta. Vegurinn liggur við vatnamót Hvítár, Tungufljóts, Stóru-Laxár og Litlu-Laxár.
Að sögn Birgis Arnar Steinarssonar í Auðsholti 4 varð vegurinn ófær fyrir fólksbíla um þrjúleytið í dag en stórir jeppar komast enn yfir. „Það hefur heldur hægt á vextinum í ánni núna seinnipartinn en ef maður maður skoðar rennslismælinn í Hvítá við Fremstaver þá sést að það á eftir að vaxa töluvert í ánni hér í nótt,“ sagði Birgir.
Flóðaviðvörun er í gildi fyrir Hvítá og Ölfusá. Miklir vatnavextir hafa orðið á vatnasvæði Hvítár vegna mikilla rigninga og spáð er áframhaldandi rigningu í kvöld og nótt. Búist er við flóði í Hvítá og Ölfusá í nótt og á morgun.
Einnig eru vegfarendur eru beðnir að sýna varúð vegna vatns sem flæðir yfir þjóðveg 1 við Skaftafell.