![Mynd](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/02/lyfjaval_selfoss-696x464.jpg)
Apótekið Lyfjaval opnar á morgun, laugardag, að Eyravegi 42 á Selfossi, í sama húsnæði og nýja Nettóbúðin.
„Við höfum í gegnum árin fengið fjölmargar óskir frá Sunnlendingum sem hafa verið að nýta sér bílalúgurnar okkar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi. Fólk á Suðurlandi hefur sýnt áhuga á lengri opnunartíma og þessari þjónustu sem bílalúgurnar eru sannarlega. Þegar okkur síðan bauðst að opna í þessu húsnæði við hliðina á Nettó fannst okkur það of spennandi til að láta ekki á þetta reyna,“ segir Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals, í samtali við sunnlenska.is.
Svanur segir að þau leggi mikið upp úr staðsetningunni og þeim möguleika á að hafa bílalúgur. Það var hvorutveggja fyrir hendi á Eyraveginum.
Gátu ekki beðið lengur með að opna
Upphaflega stóð til að Lyfjaval myndi opna síðastliðið haust en líkt og með verslun Nettó urðu tafir á framkvæmdum.
„Húseigandinn lenti í miklu brasi með allt lagnakerfi í kringum húsið og því hafa framkvæmdir dregist um marga mánuði. Nú ætlum við að opna þótt að ekki hafi náðst að malbika og gera fínt fyrir utan lúgurnar og aðalinnganginn og vonandi sýna viðskiptavinir okkur bara skilning með það. Okkur fannst ekki hægt að bíða lengur með að opna. Vorið kemur svo með sunnanblæinn og þá verður hægt að klára og gera fínt.“
![](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/02/lyfjaval4-1024x737.jpg)
Opið til kl. 21
Sem fyrr segir opnar verslunin á morgun, laugardag, klukkan níu. „Veðrið aðeins verið að stríða okkur eins og öðrum og birgjarnir ekki alveg náð að koma vörunum til okkar eins hratt og til stóð. En við erum með vaska sveit sem ætlar að hafa allt fínt og nóg af vörum fyrir laugardaginn. Lyfin eru að minnsta kosti öll komin í hús.“
Lyfjaval verður með opið sex daga vikunnar til að byrja með, frá kl. 9 til 21. „Við höfum opið inn í verslunina frá 9 til 19 en lúgurnar eru opnar til 21. Við skoðum síðan með að opna á sunnudögum, þegar við erum búin að koma okkur vel fyrir og sólin fer að hækka á lofti, með tilheyrandi ferðamannastraumi og ferðum Íslendinga um sveitir Suðurlands.“
![](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/02/lyfjaval3-1024x682.jpg)
Þakklát fyrir heillaóskirnar
Svanur segir að það sé alltaf jafn gaman að opna nýtt apótek. „Við höfum verið svo heppin að fá að opna nokkur apótek undir merkjum Lyfjavals og það fylgir því alltaf spenna og tilhlökkun. Apótekið lítur vel út og við ætlum að leggja okkur öll fram um að veita góða þjónustu. Mér sýnist við hafa verið einstaklega heppin með starfsfólk og það skiptir auðvitað sköpum.“
„Við erum afskaplega þakklát og ánægð með þær heillaóskir sem við höfum fengið hingað til og margir ætla að gefa okkur séns. Þá er bara að standa sig. Við erum heppin með nágranna þar sem við sjáum að fólk velur greinilega að koma í Nettó. Saman náum við vonandi að búa til góða staðsetningu fyrir okkar viðskiptavini.“
Fólk kann vel að meta bílalúgurnar
„Við bjóðum upp á lengri opnunartíma og við vitum hvað fólk kann vel að meta þægindin við bílalúgurnar. Hitt er svo að við þurfum að veita góða þjónustu og sýna sparihliðarnar alla daga. Helma Björk Óskarsdóttir er lyfsöluleyfishafinn okkar og hún er líka klínískur lyfjafræðingur þannig að ég efast ekki um að hennar sérþekking í ráðgjöf muni nýtast vel.“
„Til að byrja með verða þetta um tíu manns sem vinna hjá okkur í fullu starfi og hlutastarfi. Vonandi þurfum við bara strax að ráða fleiri.“
![](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/02/Lyfjaval-uti-1024x634.jpg)
Spennt fyrir nýrri staðsetningu
Svanur ítrekar að honum þykir leitt hvernig aðkoman er að húsinu, sem verður til að byrja með á malarvegi. „Húseigandinn ætlar að reyna að halda þessu eins sléttu og þægilegu og hann getur. Við erum spennt fyrir nýrri staðsetningu og hlökkum mikið til að sjá hvernig okkur muni ganga á nýjum stað. Hvetjum fólk til að líta við og láta á okkur reyna,“ segir Svanur að lokum.