Samningur hefur verið undirritaður milli Foreldrafélags Grunnskólans í Hveragerði og Hveragerðisbæjar. Samningnum er ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda og foreldrafélagsins.
Samningnum er einnig ætlað að tryggja öflugt æskulýðs- og forvarnarstarf fyrir börn og unglinga í Hveragerði samkvæmt stefnu bæjaryfirvalda þar um. Jafnframt mun Foreldrafélag Grunnskólans í Hveragerði leitast við að efla foreldrasamstarf í bæjarfélaginu.
Foreldrafélag Grunnskólans í Hveragerði mun árlega skipuleggja barnaskemmtun á öskudaginn, jólaföndur fyrir börn og forráðamenn þeirra og standa fyrir námskeiðum og/eða fyrirlestrum fyrir foreldra og forráðamenn með sérstaka áherslu á upphaf skólagöngu og elsta stig.
Auk þessa mun foreldrafélag Grunnskólans í Hveragerði stuðla að auknu samstarfi foreldra hvað varðar samræmingu á útivistartíma barna með það að leiðarljósi að samfélagið setji sér viðmið og reglur.
Samningur þessi gildir frá 1. janúar 2016 og rennur út án uppsagnar þann 31. desember 2018.