Appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út fyrir allt landið á mánudagskvöld og fram á miðvikudagsmorgun. Veðurfræðingur hjá Veðurstofunni reiknar með að rauð viðvörun verði gefin út fyrir Suðurland í fyrramálið.
Á Suðurlandi er gul viðvörun í gildi að stærstum hluta frá klukkan 16 á mánudag til klukkan 12 á þriðjudag. Frá klukkan 19 á mánudagskvöld og fram að miðnætti er appelsínugul viðvörun í gildi.
Síðdegis á mánudag gengur í suðaustan 18-25 m/sek með snjókomu eða rigningu en með kvöldinu hvessir enn frekar og mun slaga í ofsaveður. Útlit er fyrir foktjón og er fólki ráðlagt að ganga frá lausum munum og verktökum er bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.
Miklar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.
Á Suðausturlandi er versta veðrið frá klukkan 20 á mánudagskvöld og fram til klukkan 2 aðfaranótt þriðjudags. Þá er appelsínugul viðvörun í gildi, með talsverðri snjókomu eða rigningu og ekkert ferðaveður.