Ofurhetja í appelsínugulri dúnúlpu

Elín Birna í fjörunni á Eyrarbakka á páskadag. Ljósmynd/Einar Einarsson

Elín Birna Bjarnfinnsdóttir, plokkari frá Eyrarbakka, er einn af öflugustu plokkurum landsins. Það má segja að það sé Stór plokkdagur hjá henni um það bil þrisvar til fjórum sinnum í viku og það virðist engu skipta hvað árstíð eða veður er.

Hún plokkar í kringum í heimabæinn sinn Eyrarbakka, fjöruna þar og í kringum helstu umferðaræðar og þjóðveginn til og frá bænum. Í fyrra var Elín Birna verðlaunuð fyrir framlag sitt til umhverfismála í Sveitarfélaginu Árborg.

Hún er ein af 8 þúsund Íslendingum sem mynda hópinn Plokk á Íslandi á Facebook sem stofnaður var í byrjun árs 2018. Í framhaldi af því reis upp þessi sterka fjöldahreyfing sem hefur það eitt að leiðarljósi að taka upp rusl og fjarlægja úr náttúrunni. Meðlimir hópsins eru sannarlega misjafnlega öflugir en allir hafa þeir tilgang því allir taka þau þátt í að hvetja og þakka þeim sem ganga hvað vasklegast fram. Elín Birna er ein af þeim en meðal annarra öflugra plokkara má nefna Sigríði Kristjánsdóttur í Hveragerði og Ásu Maríu Ásgeirsdóttur á Flúðum.

Elínu bregður fyrir í auglýsinga og kynningarefni fyrir Stóra plokkdaginn sem er á sunnudaginn.

„Okkur finnst skipta máli að varpa ljósi á frábært starf þessara ötulu plokkara um allt land sem kalla alla daga Stóra plokkdaga. Þau eru okkur svo mikill innblástur,“ segir Einar Bárðarson, stofnandi Stóra plokkdagsins og félagi í Rótaryhreyfingunni. Rótarýhreyfingin skipuleggur Stóra plokkdaginn með stuðningi frá Landsvirkjun og umhverfis- orku og auðlindaráðuneytinu.

„Vonandi verður Elín okkur öllum hvatning til að taka til höndinni á sunnudaginn og ganga vel um landið okkar,“ bætir Einar við.

Elín Birna ásamt þeim Daníel Leó, formanni umhverfisnefndar og Braga Bjarnasyni, bæjarstjóra. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinFyrstu fjölskyldutónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands
Næsta greinAnna Metta Íslandsmeistari og Kristinn setti HSK met