Dýpið í Landeyjahöfn er „óhemju gott“ miðað við árstíma, eins og það er orðað í frétt frá Vegagerðinni.
Lægðirnar sem hafa komið að undanförnu hafa hjálpað til við dýkunina og fjarlægt sand af siglingasvæði Herjólfs og því er svo komið að ekki er þörf fyrir dýpkunarskipið Dísu í bili. Dísa hefði annars verið við dýpkunarstörf þessa dagana.
Veðurspáin er þannig að reikna má með að ekki komi nýtt efni inn í höfnina næstu sjö daga og því þarf ekki að dýpka næstu tíu daga að minnsta kosti.
„Þetta er frekar óvenjuleg staða en hefur eigi að síður komið upp áður. Nú munar reyndar um að ekki er við að etja gosefni úr Eyjafjallagosinu sem barst út í sjó með Markarfljóti,“ segir í frétt Vegagerðarinnar.