Um klukkan fjögur í nótt fékk lögreglan á Hvolsvelli tilkynningu um mann sem hafði ekið utan í átta kyrrstæða bíla á bílastæði við Landeyjahöfn.
Maðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var að auki próflaus, hafði verið sviptur áður. Manninum var sleppt eftir yfirheyrslur. Auk bílsins sem maðurinn ók eru fjórir bílanna óökufærir.
Að öðru leyti hefur helgin gengið vel fyrir sig hjá lögreglunni á Hvolsvelli. Flestir eru samankomnir á tjaldsvæðinu við Hellishóla í Fljótshlíð. Þar eru um 1000 manns en í nótt var talsverð ölvun á svæðinu og eitthvað um átök.
Nokkur hundruð manns eru á stórmóti Hestamannafélagsins Geysis á Gaddstaðaflötum og skemmta sér vel. Þar hefur ekki verið kvölddagskrá en í kvöld er dansleikur á svæðinu.
Þá er töluverður mannfjöldi á Flugkomunni í Múlakoti í Fljótshlíð. Þar skemmtu menn sér við varðeld í gærkvöldi og allt fór vel fram.