Ungur maður varð fyrir bifreið á Suðurlandsvegi á kaflanum milli Ingólfstorgs við Hrísmýri á Selfossi og Biskupstungnabrautar á milli kl. 4:15 og 4:30 aðfaranótt sunnudags.
Maðurinn var á gangi í vegkantinum og ætlaði á puttanum til Reykjavíkur. Hann sá bifreið nálgast og fannst sem ökumaður ætlaði að stöðva. Ungi maðurinn gekk inn á veginn með þeim afleiðingum að hann lenti utan í hægra frambretti bifreiðarinnar.
Við það kastaðist hann aftur fyrir sig í götuna en bifreiðin hélt áfram og hvarf sjónum mannsins. Sá sem fyrir bifreiðinni varð stóð upp og gekk inn í miðbæ Selfoss um tveggja kílómetra leið. Þar náði hann sambandi við einhvern sem tilkynnti til Neyðarlínu.
Maðurinn reyndist óbrotinn en eitthvað hruflaður. Þar sem atvikið átti sér stað er góð götulýsing. Ekki tókst unga manninum að sjá skráningarnúmer bifreiðarinnar né greina tegund hennar en hún var grá eða silfurlituð.
Ökumaður bifreiðarinnar er beðinn að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010.