Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í morgun 22 ára gamlan karlmann í tveggja og hálfsárs fangelsi fyrir ítrekuð afbrot.
Ákæruliðirnir voru 24 talsins og játaði ákærði þá alla. Hann var m.a. kærður fyrir marga þjófnaði, vörslu fíkniefna og akstur undir áhrifum fíkniefna.
Í apríl sl. ók maðurinn á ofsahraða á Eyrarbakka undir áhrifum amfetamíns á flótta undan lögreglunni. Maðurinn ók á allt að 136 km hraða á Háeyrarvöllum og Eyrargötu þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km og á allt að 112 km hraða um Búðarstíg sem er vistgata þar sem hraðatakmörkin eru 15 km.
Þá var maðurinn ákærður fyrir innbrot í geymsluhúsnæði í Þorlákshöfn í febrúar í fyrra og á Stórólfshvoli í Hvolhreppi í janúar 2009. Auk þess var hann kærður fyrir vörslu þýfis á heimili sínu í Þorlákshöfn, að færa skráningarmerki á milli bifreiða og selja bifreið sem hann átti ekki.
Auk fangelsisdómsins var maðurinn sviptur ökurétti ævilangt og gert að greiða bætur til nokkurra aðila og sakarkostnað upp á rúmar tvær milljónir króna.