Flugbjörgunarsveitin á Hellu var kölluð út rétt eftir klukkan 18:00 í kvöld vegna vélsleðamanns sem ók fram af hengju á vestanverðum Vatnajökli og slasaðist.
Jafnframt var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð á staðinn. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðsli mannsins eru en samkvæmt upplýsingum frá ferðafélögum hans er ástand hans stöðugt.
Björgunarmenn frá Hellu óku af stað á slysstað, snjóbíll sveitarinnar var gerður klár og Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli sett í biðstöðu.
Skyggni á slysstað var með þeim hætti að ekki þótti víst að þyrlan gæti athafnað sig sem svo varð raunin. Hún lenti í nokkurri fjarlægð frá slysstað og ferðafélagar mannsins fluttu hann að þyrlunni.