OK opnar skrifstofu við Austurveginn

Austurvegur 42. Ljósmynd/Aðsend

OK hefur flutt starfsemi sína að Austurvegi 42 á Selfossi. Á nýja staðnum verður OK enn betur í stakk búið til að mæta þörfum viðskiptavina sinna og veita þeim sem fyrr persónulega og vandaða þjónustu þegar kemur að tæknilausnum.

OK á Suðurlandi, áður upplýsingatæknihluti TRS, býr yfir öflugum og reyndum hópi um tuttugu sérfræðinga, sem um árabil hefur verið bakhjarl um 330 fyrirtækja í flestum atvinnugreinum víðsvegar um landið. Starfsemin er jafnframt hluti af enn stærra teymi sérfræðinga OK á höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu.

Spennandi tímar framundan
„Það eru spennandi tímar framundan hjá OK á Suðurlandi. Nýtt skrifstofurými veitir okkur burði til að sækja enn frekar fram en tryggja um leið að núverandi viðskiptavinir fái áfram þá persónulega þjónustu sem við erum þekkt fyrir. Okkar markmið er að styðja við fyrirtæki í nærumhverfi okkar svo að þau geti einbeitt sér að sinni starfsemi og vaxið og dafnað. Við hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum á nýja staðnum, en þar er opið frá kl. 8-16 alla virka daga,“ segir Karl Óskar Kristbjarnarson, rekstrarstjóri OK á Suðurlandi.

180 sérfræðingar um land allt
OK er leiðandi tölvufyrirtæki sem var stofnað árið 1985. Fyrirtækið sérhæfir sig í sölu og ráðgjöf á tæknilausnum og tengdri þjónustu. Má þar nefna rekstur tölvukerfa, veflausnir og sölu á tæknibúnaði og öryggislausnum. Hjá fyrirtækinu starfa um 180 sérfræðingar um land allt. OK er öflugur umboðs- og samstarfsaðili helstu vörumerkja heims í tæknilausnum eins og HP, Jabra, Yealink, Red Hat, HPE, Aruba og Poly.

Fyrri greinAllt í járnum í Ólafsvík
Næsta greinMaður um mann – Gleðistund að Kvoslæk