Sveitarstjórn Ásahrepps ákvað á fundi sínum í gær að allir sem eiga lögheimili í hreppnum þann 1. desember næstkomandi fá ljósleiðaralögn og tengingu heim til sín sér að kostnaðarlausu.
Um leið skuldbinda þeir sig til áskriftar að ljósleiðaranum í þrjú ár fyrir 3.000 kr. á mánuði. Þeir sem síðar bætast við þurfa að greiða raunkostnað við lagningu leiðarans, líkt og sumarhúsaeigendur og íbúar annarra sveitarfélaga sem óska eftir tengingu að ljósleiðaranum vegna nálægðar við lögnina.
Eigendur atvinnuhúsnæðis þurfa hins vegar að greiða raunkostnað við lögnina.
Björgvin G. Sigurðsson, sveitarstjóri Ásahrepps, sagði í samtali við sunnlenska.is að þetta gefi þeim sem eiga hús sem uppfylla skilyrði um lögheimili tækifæri til að færa lögheimilið tímanlega. Aðrir borga raunkostanað við lögnina, sem gæti verið um 300 þúsund fyrir hvert hús.