Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út á fimmta tímanum í dag vegna konu á Fimmvörðuhálsi sem talin var ökklabrotin. Um var að ræða sextuga ferðakonu frá Bandaríkjunum.
Hún hafði verið á göngu í tíu manna hópi þegar hún hrasaði á gönguleiðinni og slasaðist. Um er að ræða svipaðar slóðir og útköll björgunarsveita hafa verið á undanfarna daga.
Á svæðinu var lágskýjað og mikill vindur og var hópurinn staddur í lægð þar sem var lélegt símasamband og gekk brösuglega að fá upplýsingar í fyrstu. Fljótlega kom þó í ljós að líðan konunnar var verri en talið var, hún var mikið verkjuð og orðin köld og hrakin.
Björgunarsveitarfólk kom að henni tæpum tveimur klukkustundum eftir að útkall barst og hófst handa við að búa um hana til flutnings og verkjastilla eins og hægt var. Henni var strax komið á sexhjól og hún þannig flutt að sérútbúnum jeppa til móts við sjúkraflutningamenn sem komu í samfloti við björgunarsveitarfólk upp á Fimmvörðuháls. Þeir gátu verkjastillt hana betur fyrir næsta áfanga, en þá átti hún eftir um tveggja klukkustunda ferðalag í bíl niður í Skóga, þar sem sjúkrabíll beið hennar.
Rétt fyrir klukkan níu í kvöld var konan komin í sjúkrabíl í Skógum.