Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Hellu og Hvolsvelli voru kallaðar út laust eftir klukkan fjögur í dag vegna ferðamanns sem hafði fallið á göngu við fossinn Gljúfrabúa norðan við Seljalandsfoss.
Talið var að viðkomandi væri ökklabrotinn og þurfti sérþjálfaða björgunarmenn með fjallabjörgunarbúnað til að koma manninum til aðstoðar.
Tólf björgunarmenn fóru á staðinn ásamt lögreglu og sjúkraliði og gekk vel að koma manninum niður á jafnsléttu og var hann kominn í sjúkrabíl á sjötta tímanum.