„Okkur finnst nemendur í FSu hreinlega hafa gleymst“

Sandra Dís á barn í FSu og hefur líkt og margir aðrir foreldrar áhyggjur af stöðu mála. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Kennaraverkfallið sem hófst 29. október síðastliðinn er enn í fullum gangi og virðist engin lausn vera sjónmáli hjá deiluaðilum. Foreldrar barna í Fjölbrautaskóla Suðurlands eru uggandi yfir stöðunni.

Fjölbrautaskóli Suðurlands er eini framhaldsskólinn á landinu þar sem kennarar lögðu niður störf. Einnig hafa kennarar lagt niður störf í fjórum leikskóla, þremur grunnskóla og einum tónlistarskóla á landinu.

Sandra Dís Hafþórsdóttir, móðir nemenda við FSu, lýsti yfir áhyggjum sínum í Facebook-hóp foreldra nemenda í FSu. Fjölmargir foreldrar tóku undir orð Söndru og hafa áhyggjur af því að samningviðræður þokist lítið sem ekkert.

„Við foreldrar barna og ungmenna í Fjölbrautaskóla Suðurlands erum mjög uggandi yfir þeirri stöðu sem komin er upp í kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins. Nú hefur verkfallið staðið yfir í tæpar tvær vikur og það virðist ekkert vera að gera og við erum bara mjög ósátt við þessa stöðu,“ segir Sandra í samtali við sunnlenska.is.

Verkfall í einum skóla skapi ekki mikinn þrýsting
Lítið virðist hafa þokast í viðræðunum deiluaðila þessar tvær vikur sem verkfallið hefur staðið yfir. Sandra telur að ein ástæðan sé sú að ekki skapist nægilegur þrýstingur með því að hafa verkfall í einugis einum framhaldsskóla.

„Okkur finnst sárt að sjá að okkar börn skuli vera þau einu sem verða fyrir barðinu á verkfallsaðgerðum framhaldsskólakennara og í rauninni óásættanlegt. Auðvitað viljum við engum öðrum að lenda í þessari stöðu en sannleikurinn er sá að með verkfalli í fleiri skólum má gera ráð fyrir að það myndist meiri þrýstingur á samningsaðila en það er eitthvað sem við upplifum að sé alls ekki til staðar núna.“

„Samningsaðilar virðast varla ræðast við, mennta- og barnamálaráðherra virðist engan áhuga hafa á stöðunni, umfjöllun um stöðu barnanna okkar er engin og okkur finnst nemendur í FSu hreinlega hafa gleymst.“

Fjölbrautaskól Suðurlands. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Ekki sanngjarnt að aðeins einn skóli fari í verkfall
Sandra er efins um verkfallsaðgerðir sem þessar skili tilætluðum árangri.

„Ég geri mér fulla grein fyrir því hver tilgangur verkfalla er, þau eiga að bíta. Verkfallsrétturinn er skýr en það er samt sem áður sorgleg staðreynd að verkfall framhaldsskólakennara í einum skóla út á landi hefur greinilega lítið að segja.“

„Eins og ég sagði er lítil sem engin umfjöllun, engar viðræður og okkur virðist sem öllum sé bara alveg sama á meðan þeirra skólabörn eru ekki í verkfalli. Er þá nema von að maður spyrji, hverju skilar þetta verkfall?“

„Kennarar eru mikilvægir í lífi okkar allra, þeir eiga skilið virðingu og mannsæmandi laun en það er bara ekkert sanngjarnt við það að hægt sé að handvelja þá framhaldsskólanema sem eiga að bera byrðarnar fyrir alla hina.“

Framtíðarplön í hættu
Verkfallið hefur margvísleg áhrif á líf nemenda við FSu en margir nemendur þurfa að ferðast langa leið til að sækja sitt nám við skólann.

„Það er grafalvarlegt mál að hátt í þúsund ungmenni á Suðurlandi séu í þeirri stöðu að geta ekki stundað nám. Mörg þeirra hyggja á útskrift um áramót og eru búin að gera framtíðarplön, sum hafa þurft að leggja út fyrir leigu yfir önnina eða kostnaði við strætóferðir til og frá skóla og treysta á jöfnunarstyrk sem ætti að koma á móti þeim kostnaði. Staðan er sú að sá styrkur er einungis greiddur út ef hægt er að sýna fram á námsárangur og það verður auðvitað ekki hægt ef önnin fer í súginn.“

„Ég hef átt samtöl við nokkra nemendur og þeir eru allir sammála um að þetta sé orðið gott. Þau hafa áhyggjur af því hvað verður um alla þá vinnu sem þau hafa lagt í þessa önn, hvort þetta seinki útskrift og hvort vinir og félagar skili sér hreinlega í skólann aftur.“

Frá fundi sem skólameistari FSu hélt fyrir nemendur skólans í aðdraganda verkafallsins. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Erfitt fyrir marga að missa úr námi
Sandra segist hafa mjög miklar áhyggjur af unga fólkinu ef ekki næst að semja fljótlega. „Fjölmargar kannanir sýna að líðan ungmenna hefur farið versnandi undanfarin ár og ég efast ekki um að svona aðgerðir sem snúa að ungu fólki hafi bein áhrif á líðan þeirra.“

„Það að detta út úr rútínu, missa af vinum og sínu félagslega neti hefur áhrif svo ég tali nú ekki um það að missa úr námi sem getur reynst mjög mörgum erfitt. Í okkar skóla erum við með mikinn fjölbreytileika í nemendahópnum og því miður eiga ekki allir auðvelt með að vinna upp þann tíma sem tapast hefur í námi.“

„Ég vil bara að lokum koma því á framfæri að við foreldrar barna og ungmenna í FSu skorum á samningsaðila að bretta upp ermar, sýna ábyrgð og koma sér að verki því við þetta ástand verður ekki unað,“ segir Sandra að lokum.

Fyrri greinKallað eftir tilefningum fyrir Viðurkenningahátíð FKA
Næsta greinNý Ölfusárbrú strax!