Ökumaðurinn klifraði í aftursætið

Lögreglan á Selfossi handtók ökumann í nótt eftir ölvunarakstur. Þegar maðurinn varð lögreglunnar var ók hann inn í botnlanga, drap á bílnum og klifraði yfir í aftursætið.

Maðurinn neitaði að hafa ekið bílnum en lögreglu þótti framburður hans ekki trúverðugur þar sem hann var einn á ferð.

Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, var látinn blása í áfengismæli og reyndist yfir mörkum. Hann var látinn sofa úr sér í fangageymslu og verður yfirheyrður síðar í dag.

Mikið var um hraðakstur á umdæmi lögreglunnar á Selfossi í nótt. Sá sem hraðast fór mældist á 139 km/klst hraða. Reyndist ökumaðurinn vera búinn að smakka áfengi fyrr um kvöldið en hann mældist þó ekki yfir leyfilegum mörkum. Hans bíður þó 90 þúsund króna sekt fyrir hraðaksturinn og þá fær hann þrjá punkta í ökuferilsskrá.

Fyrri greinTíðindalaus skjálftavakt
Næsta greinLéttur leikur á Listasafninu