Ökumaður jeppabifreiðar var fluttur á slysadeild Landspítalans eftir bílveltu efst á Sandskeiði á ellefta tímanum í morgun.
Tildrög slyssins eru ekki ljós en bíllinn var á leið austur Suðurlandsveg þegar ökumaðurinn missti stjórn. Hann fór yfir á gagnstæðan vegarhelming, valt útaf veginum og stöðvaðist á hliðinni á vegstæði nýja Suðurlandsvegarins.
Lögregla og sjúkralið frá Selfossi voru kölluð út ásamt tækjabílum slökkviliðanna í Hveragerði og Reykjavík. Klippa þurfti ökumanninn út úr bifreiðinni en ekki er ljóst hversu mikil meiðsli hans eru.
Þetta er annað slysið á þessum slóðum í dag því rétt fyrir kl. 7 í morgun varð bílvelta skammt ofan við Litlu kaffistofuna.