Í liðinni viku kærði lögreglan á Suðurlandi 39 ökumenn fyrir of hraðan akstur. Tveir þeirra mældust á 147 km/klst hraða þar sem leyfður hraði er 90 km/klst og „sleppa“ með 130 þúsund króna sekt og sviptingu ökuréttar í einn mánuð fyrir brot sín.
Með gildistöku nýrrar reglugerðar um sektir og önnur viðurlög vegna umferðarlagabrota sem tekur gildi á morgun 1. maí hækkar þessi sekt í 210 þúsund krónur, og svipting í einn mánuð.
Sama á við um mörg önnur umferðarlagabrot og hvetur lögreglan ökumenn eindregið til að spara sér útgjöldin með því að aka eftir umferðarlögum. „Allt er þetta gert til að skapa umferðinni aðhald og draga úr umferðarslysum,“ segir í dagbók lögreglunnar.
Skráningarnúmer voru tekin af tveimur ökutækjum sem reyndust í umferð án gildra trygginga. Sekt við slíku broti verður, eftir mánaðarmótin, 50.000 krónur en þessir tveir falla inn á “gömlu reglugerðina” og fá því 30 þúsund króna sekt fyrir brotið.