Samgöngustofa minnir á að þeir sem hyggjast aka til Landeyjarhafnar um helgina gefi sér góðan tíma til ferðarinnar en eitthvað hefur borið á hraðakstri um Suðurlandsveg að Landeyjahöfn.
Þeir sem hyggjast aka frá Reykjavík til Landeyjarhafnar nú um helgina þurfa að gera ráð fyrir tveggja klukkustunda akstri ef aðstæður eru góðar. Hraðaksturinn má í einhverjum tilfellum rekja til þeirrar ranghugmyndar að það taki aðeins eina og hálfa klukkustund að aka leiðina frá Reykjavík að Landeyjarhöfn. Það er ógerlegt að aka þessa vegalengd á svo skömmum tíma nema ekið sé á köflum langt yfir leyfðum hámarkshraða.
Hafa skal í huga að á leiðinni er ekið í gegnum þrjá þéttbýliskjarna þar sem hraði er takmarkaður miðað við það sem almennt gerist á leiðinni. Um verslunarmannahelgina má án efa búast við mikilli umferð og getur þá jafnvel þurft að gera ráð fyrir lengri tíma.