Í liðinni viku kærði lögreglan á Selfossi 33 ökumenn fyrir að aka of hratt. á sem hraðast ók mældist á 139 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.
Sá hinn sami átti einn punkt fyrir í ökuferilsskrá og þetta brot kostaði hann þrjá punkta til viðbótar auk sektarinnar sem í þessu tilfelli var 90 þúsund krónur. Þar sem að ökumaðurinn var á bráðabirgðaskírteini voru ökuréttindi hans afturkölluð á staðnum. Hann fær þau ekki aftur fyrr en hann hefur setið sérstakt námskeið fyrir þá sem eru á bráðabirgðaskírteini og fá fjóra punkta eða fleiri í ökuferilsskrá eða ef viðkomandi er á bráðabirgðaskírteini og sætir sviptingu vegna hraðaksturs eða fíkniefna- eða ölvunaraksturs þó svo að sviptingin vari ekki lengur en 1 ár.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að tveir voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiða sinna.
Tveir voru stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur í liðinni viku og þrír aðrir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir þeirra eru taldir hafa verið undir áhrifum kannabisefna en sá þriðji er talin hafa neytt fleiri efna. Hann var auk þess án ökuréttinda og hafði tapað þeim vegna fyrri brota.