Ólafía Guðrún dúxaði með hæstu einkunn í sögu skólans

(F.v.) Sigursveinn Sigurðsson, aðstoðarskólameistari, Vigdís Jóna Árnadóttir, Ólafía Guðrún Friðriksdóttir og Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari. Ljósmynd/FSu

Stærsta brautskráning í sögu Fjölbrautaskóla Suðurlands fór fram síðastliðinn föstudag þegar rúmlega 170 nemendur brautskráðust frá skólanum, þar af 100 stúdentar.

Flestir stúdentanna útskrifuðust af opinni línu, 52 talsins, 17 af náttúrufræðilínu og 12 af félagsgreinalínu. Af iðnbrautum brautskráðust 13 af húsasmíðabraut og 12 af rafvirkjabraut, svo eitthvað sé nefnt, og 8 af vélvirkjabraut. Þeirra á meðal var Vigdís Jóna Árnadóttir frá Ljónsstöðum, sem er fyrsta konan sem lýkur vélvirkjanámi frá FSu og hlaut hún meðal annars viðurkenningu fyrir einstaka vandvirkni og metnað í náminu.

Dúx skólans er Selfyssingurinn Ólafía Guðrún Friðriksdóttir og gerði hún sér lítið fyrir og útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn í sögu skólans. Ólafía hlaut viðurkenningu fyrir afburða námsárangur á stúdentsprófi á náttúrufræðilínu og var auk þess verðlaunuð fyrir góðan árangur í stærðfræði, eðlis- og efnafræði, íslensku, þýsku og ensku. Hún hlaut einnig námsstyrk frá Hollvarðasamtökum skólans, ásamt þeim Vigdísi Jónu og Silvíu Rós Valdimarsdóttur Nokkala.

Fjölmargir nemendur verðlaunaðir
Fjölmargir fleiri nemendur hlutu viðurkenningar við brautskráningu. Ernest Brulinski fékk verðlaun fyrir góðan árangur í ensku og fyrir einstaka natni í skapandi greinum, Auður Helga Halldórsdóttir fyrir spænsku, Ester Eva Víðisdóttir fyrir félagsgreinar, Einar Skeggjason dugnað og elju á sérnámsbraut, Guðrún Ásta Ægisdóttir fyrir stærðfræði, Lísa Karen Vokes fyrir dönsku, Þórmundur Smári Hilmarsson fyrir rafvirkjagreinar, Þórdís Páley Guðnadóttir fyrir sögu, Sölvi Sigurgeirsson fyrir framlag til félagsstarf á sérnámsbraut, Óskar Helgi Guðnason fyrir verklegar húsasmíðagreinar, Filip Markowski fyrir viðskiptagreinar og Elín Þórdís Pálsdóttir og Rúnar Freyr Gunnarsson fengu viðurkenningu fyrir frábær störf í þágu félagslífs nemenda. Þá hlaut Hildur Björk Gunnsteinsdóttir, nýstúdent og unglingalandsliðskona í körfubolta, menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir frábæra frammistöðu á stúdentsprófi þar sem fjölbreyttir hæfileikar hennar hafa fengið að njóta sín.

Olga Lísa kveður
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, hélt sína síðustu útskriftarræðu eftir tólf ára farsæla stjórnun en hún lætur af störfum sem skólameistari í sumar. Í ræðu sinni lagði Olga Lísa út af þeim tímamótum sem nýútskrifaðir nemendur standa á og felast í því að þegar einum áfanga í lífinu er lokið þá hefst nýr áfangi með nýjum áskorunum. Hún fjallaði meðal annars um vinnuálag nemenda og mikilvægi vinskapar á þessum mótunarárum auk þess sem hún lagði áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem draga saman allt það sem menntaðir einstaklingar og samfélög þurfa að stefna að. Að endingu kvaddi hún með þeim orðum að FSu væri lykilstofnun í sunnlensku samfélagi og að þar starfaði einvala og samhent lið. „Ég hef notið alls þess sem sunnlenskt samfélag hefur gefið mér, hér er mikil og góð samstaða og skólinn skipar mikilvægan sess í samfélaginu. Fyrir það þakka ég,” sagði Olga Lísa.

Fyrri greinLöggan sannfærð um að veturinn sé búinn
Næsta greinKatla og Einar best hjá Selfyssingum