Ólafía Jakobsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri í Skaftárhreppi, var ein tólf Íslendinga sem í dag voru sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Ólafía fær orðuna fyrir störf á sviði landverndar og menningarmála í héraði.
Ólafía er fædd í Kálfafellskoti í Fljótshverfi en flutti sem unglingur með foreldrum sínum að Hörgslandi á Síðu, þar sem hún býr enn. Ólafía sat lengi í hreppsnefnd og síðar sveitarstjórn, var sveitarstjóri Skaftárhrepps í fjögur ár og hefur verið fulltrúi síns samfélags í fjölmörgum ráðum og nefndum, svo sem minjaráði Suðurlands, komið að stofnun ferðamálafélags og frumkvöðlaklasa, skógræktarfélags og Kötlu jarðvangs svo dæmi séu tekin.
Í tæp 20 ár hefur Ólafía starfað á Kirkjubæjarstofu, lengst af sem forstöðumaður. Hún átti drjúgan þátt í endurreisn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands árið 2005 og sat í stjórn samtakanna samfleytt í 13 ár. Þá var hún ein aðaldriffjöðrin í stofnun Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi árið 2010.
Meðal annarra orðuhafa í dag voru Bjarni Felixson fyrrverandi íþróttafréttamaður, Gerður Kristný Guðjónsdóttir rithöfundur, Haraldur Ingi Þorleifsson frumkvöðull, Jóhanna Guðrún Kristjánsdóttir menntunarfræðingur á Flateyri og Sigurður Flosason, hljóðfæraleikari og tónskáld.