Lið Ölfuss komst áfram í Útsvarsþætti kvöldsins í Ríkissjónvarpinu þrátt fyrir að tapa 95-59 gegn feykisterku liði Fljótsdalshéraðs.
Ölfus er eitt af stigahæstu tapliðunum og ljóst að stigin 59 munu fleyta þeim áfram í næstu umferð. Lið Árborgar er sömuleiðis komið áfram en Árborg fékk 57 stig í tapleik á dögunum.
Keppni kvöldsins var bráðskemmtileg en þetta er í fyrsta skipti sem lið Ölfuss tekur þátt í keppninni.
Lið Ölfuss skipa Ingibjörg Hjörleifsdóttir, framhaldsskólanemi, Hannes Stefánsson, þýskukennari í FSu og Ásta Margrét Grétarsdóttir, bókari. Ásta hljóp í skarðið á síðustu stundu fyrir Bjarna Má Valdimarsson sem lá veikur heima.