Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á fundi sínum í dag að kaupa 9% hlut í leikskólum Hveragerðisbæjar. Leikskólabörn í dreifbýli Ölfuss njóta í kjölfarið sama aðgengis að leikskólunum og börn með lögheimili í Hveragerði.
Á fundinum í dag staðfesti bæjarstjórn Ölfuss tillögu bæjarráðs Hveragerðisbæjar sem lögð var fram í síðustu viku.
Ölfus eignast 9% hlut í leikskólunum Undralandi og Óskalandi í Hveragerði gegn greiðslu sama hlutfalls í uppreiknuðu endurstofnverði leikskólans Óskalands.
Í kjölfarið munu börn á leikskólaaldri með lögheimili í dreifbýli Sveitarfélagsins Ölfuss njóta sama aðgengis að leikskólunum í Hveragerði og börn sem eru með lögheimili í Hveragerðisbæ. Ölfus mun greiða rekstrarkostnað leikskólanna í hlutfalli við barnafjölda úr sveitarfélaginu á hverjum tíma en kostnaður vegna barna sem þurfa sérstakan stuðning verður metinn sérstaklega og um hann samið hverju sinni.
Í samningnum verður gert ráð fyrir því að kostnaðarþátttaka Sveitarfélagsins Ölfuss vegna framtíðar uppbyggingar leikskólamannvirkja og viðhalds verði í samræmi við væntanlegan eignarhlut.
Börnum úr Ölfusi sem nú eru á biðlista eftir plássum í leikskólunum í Hveragerði verður boðið pláss á leikskólum Hveragerðisbæjar hið allra fyrsta.
Í kjölfar þessarar ákvörðunar hefur Gunnsteini R. Ómarssyni, bæjarstjóra Ölfuss, verið falið að vinna að endurskoðun á samstarfssamningi sveitarfélaganna.