Bæjarráð Ölfuss samþykkti á dögum að greiða foreldrum þeirra barna sem ekki eru í vistun hjá dagforeldrum eða á leikskóla svokallaðar heimgreiðslur.
Hægt er að sækja um greiðslu þegar fæðingarorlofi lýkur, þ.e. frá 10 mánaða aldri barns á árinu 2020 og 12 mánaða aldri frá 1. janúar 2021. Með þessu vonast sveitarfélagið til að við bætist enn eitt úrræðið fyrir foreldra ungra barna.
Greiðslurnar eru þær sömu og niðurgreiðslur á þjónustu dagforeldra, 41.600 krónur en 48.000 krónur fyrir einstæða foreldra og námsmenn. Skilyrði er að barnið eigi lögheimili í sveitarfélaginu.
Hægt er að sækja um þennan stuðning í íbúagáttinni á heimasíðu Ölfuss.