Ölfus hlaut Orðsporið 2015

Sveitarfélagið Ölfus og Kópavogsbær hlutu hvatningarverðlaunin Orðsporið 2015 í dag, fyrir öflugt leikskólastarf í sveitarfélögunum.

Orðsporið var veitt við hátíðlega athöfn í Björnslundi leikskólans Rauðhóls í Norðlingaholti. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti viðurkenningarnar. Fyrir hönd Ölfuss tóku þau Gunnsteinn Ómarsson, bæjarstjóri og G. Ásgerður Eiríksdóttir, leikskólastjóri við Orðsporinu.

Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt er þeim sem þykir hafa skarað fram úr í að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskólastarfs og leikskólabarna. Ákveðið var á síðasta ári að Orðsporið 2015 færi til sveitarfélags eða rekstraraðila sem þætti hafa skarað fram úr í hækka menntunarstig starfsmanna og eða fjölga leikskólakennurum.

Í rökstuðningi valnefndar um Orðsporið 2015 segir að bæði Ölfus og Kópavogur hafi sýnt sveigjanleika þannig að leikskólastarfsmenn hafa getað sinnt námi með vinnu; styrkir hafi verið veittir vegna námskostnaðar og launuð námsleyfi veitt. Í báðum sveitarfélögunum hefur þeim sem stundað hafa og lokið námi í leikskólakennarafræðum fjölgað í kjölfar metnaðarfullrar stefnu og framkvæmdar hennar. Í Ölfusi hafa þrettán lokið námi í leikskólakennarafræðum frá aldamótum.

Að Degi leikskólans stendur Samstarfshópur um Dag leikskólans en hann er skipaður fulltrúum Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla.

Fyrri greinDagur leikskólans í Álfheimum
Næsta greinSelja skóla fyrir uppbyggingu Kirkjuhvols