Ölfus vann 67-66 sigur á Hveragerði í spennandi nágrannaslag í spurningakeppninni Útsvari í Ríkissjónvarpinu í kvöld.
Keppnin var jöfn og spennandi en Ölfusingar náðu forskoti eftir góða frammistöðu í látbragðsleiknum. Að lokum skildi þó aðeins eitt stig liðin að eftir spennu í lokin.
Hvergerðingar þurfa þó ekki að örvænta því þeir eru ásamt Árborg meðal stigahæstu tapliðanna og eiga því enn möguleika á að komast í aðra umferð.
Lið Ölfuss skipa þau Ágústa Ragnarsdóttir, hornleikari, Hannes Stefánsson, leiðsögumaður og Árný Leifsdóttir, áhugaleikhúsrotta.
Lið Hveragerðis skipa þau Úlfur Óskarsson, býflugnabóndi, Svava Þórðardóttir, lyfjafræðingur og Eyþór Heimisson, háskólanemi.