Vatnsyfirborð Ölfusár við Selfoss hefur haldið áfram að hækka síðan í gærkvöldi vegna klakastíflunnar og er farvegurinn nú rúmlega bakkafullur við Ölfusárbrú.
Í nýrri greiningu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands segir að sífellt meiri ís berist að ofan og hefur verið taktur í uppbyggingu klakastíflunnar. Klaki hleðst upp frá Ölfusárbrú að Jórukletti, en svo brotnar hann upp og skolast niður að stíflunni, sem þykknar í kjölfarið.
Vatnshæðarmælirinn fyrir ofan Básinn sýndi 4,7 metra rétt fyrir klukkan tíu í morgun og hefur hækkað um 70 sm síðan klukkan 18 í gær. Aðeins vantar 80 cm þar til vatnshæðin nær sömu stöðu og þann 21. desember 2006 en þá flæddi meðal annars vatn inn í kjallara Selfosskirkju.
Aðstæðurnar árið 2006 voru allt aðrar en þá hækkaði í ánni eins og oftast áður vegna hlýinda og rigningar. Nú hækkar í ánni vegna klakastíflu án leysinga.